Drottning Viðmiðunarinnar

sunnudagur, mars 25, 2007

Ekkert

Þegar ég fór í Bónus um daginn mætti ég tveimur ungum mönnum sem voru að gefa 2ja lítra flöskur af Coke Zero. Being a sucker for free goods þá þáði ég eina slíka, þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar um að þetta sull skyldi ég sko ekki drekka. Nafnið (og hvað þá auglýsingaherferðin!) væri hallærislegt og vísaði í mínum hug ekki einasta í sykurleysi, heldur líka í bragðleysi, tilgangsleysi og almennan skort á öllu góðu. En flöskuna þáði ég, og braut þar með fyrsta odd af oflæti mínu.

Það brot gekk aðeins lengra niður þegar ég opnaði flöskuna svo tveimur dögum seinna, og smakkaði drykkinn, því einhversstaðar hafði ég lesið það að einhverjum þætti áðurnefndur drykkur alls ekki slæmur þrátt fyrir fyrri trú á hið gagnstæða, og kannski, rétt kannski ætti mitt viðhorf eftir að breytast. Það væri þá betra að uppgötva það fyrr en síðar og jafnvel þá í einrúmi, verandi yfirlýsingaglöð manneskja sem vílar ekki fyrir sér að segja skoðun sína á vörum og þjónustu (stundum). Prufuna endurtók ég svo aftur tveimur dögum síðar, svona til að endanlegar niðurstöður myndu síður litast af ástandi mínu og bragðlaukanna í fyrra skiptið.

Niðurstaðan : Coke Zero á tvennt sameiginlegt með íslensku vatni. Það er bragðlaust og gott kalt.
Munurinn er hinsvegar sá að á meðan ég get svolgrað í mig 1,5 líter af vatni á 8 klst. vinnudegi, þá kem ég bara niður einu glasi af Coke Zero á sama tímabili. Því einhvernveginn þá ... er Núllið bara ekki nógu gott.

2 Comments:

  • iss mér finnst þetta allt alveg eins, zero, diet og light
    Til hvers að vera með margar tegundir af sama fjandanum??

    By Anonymous Nafnlaus, at 26/3/07 00:39  

  • Já bæ ðe vei var þetta EÓB

    By Anonymous Nafnlaus, at 26/3/07 00:40  

Skrifa ummæli

<< Home