Drottning Viðmiðunarinnar

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

jólalögin

Í Blaðinu í gær voru nokkrir þekktir einstaklingar spurðir út hvert væri þeirra uppáhalds jólalag, og hvaða lag þeir þyldu síst (eða fyndist lélegast). Hefði ég verið spurð út í hið síðarnefnda, þá hefði ég svarað því að þau jólalög sem ég þoli síst eru þau sem innihalda illa saminn og illa hugsaðan texta. Texta sem byggist á því að troða saman í texta eins mörgum orðum og hægt er úr "jólaorðapottinum", og tengja þau með sagn- og lýsingarorðum. Textar sem segja ekki neitt nema að vitna í Bókarsögur og eru að tapa sér í sögurómantíkinni án þess að skeyta um hvort textinn sé rökréttur*, eða vitna í endalaust gjafaflóð og ljósaflóð og hamingju og jólatré án þess að vera í raun að segja annað en "Mér þykir svo óóóógeðslega gaman á jólunum og þá eru pakkar og þá er svo gaman og það er svo jóló að þykja svona gaman á jólunum". Eða því sem næst. Merkilegt hvað lendir í ruslakistu jólanna.

* Ein íslensk þýðing á jólatexta (hvers frumgerð ég þekki því miður ekki) er á þennan veg: "[F]æddi hún lausnarann hreinni af náð."
Mikið er það nú gott að María skuli hafa miskunnað sig yfir mannkynið og ákveðið að a) ganga með barnið sem hún varð ófrísk af, og b) neita barninu ekki um fæðingu 9 mánuðum síðar. Hún hefði svo auðveldlega haldið því fyrir sig alveg þar til hún dæi og barnið með því. Sem hefði væntanlega gerst mun fyrr en síðar ef barnið hefði fengið að kúra innanborðs í henni langt fram yfir mennskan meðgöngutíma.

Af öðru: föllum við Íslendingar í hrönnum fyrir hlutum/fyrirtækjum sem heita samheitum, eða er það eitthvað sem dagblaðamógúlar trúa bara? Svo ég taki nú dagblaðaflóru (flóru, því pappamassi var eitt sinn tré) okkar sem dæmi. Þar heita blöðin þeim "sérstæðu" nöfnum Blaðið, Fréttablaðið, Morgunblaðið, Dagblaðið... Af þessum nöfnum finnst mér þó Morgunblaðið skást, því það kemur altént á morgnana, meðan öll hin (nema, eins kaldhæðið og það er, Dagblaðið sjálft) falla undir hið almenna samheiti "dagblöð" því þau koma út nánast eða alveg daglega, eða "fréttablöð" því þau eru jú uppfull af fréttum héðan og þaðan.

Hvenær ætli einhverju sjéníinu detti í hug að gefa út blað sem mun heita "Síðdegisblaðið" eða "Kvöldblaðið", eða jafnvel "Virkra-daga-blaðið"? Því þau nöfn eru enn laus, eftir því sem ég best veit.

Ef þetta eru þau nöfn sem Íslenskum blaðaútgefnendum detta í hug, þá vona ég að einhver sýni það frumkvæði að hrista aðeins upp í þessu og gefa út "Alltaf-nema-á-þriðjudögum*" (*eða hvaða vikudegi sem er). Það væri þá allavega gaman að vitna í það blað; "Já, ég sá það í Alltaf-nem'á-þri'judö'm að þeir ætluðu að taka upp Árna-málið..."

4 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home