Drottning Viðmiðunarinnar

miðvikudagur, desember 13, 2006

miðvikudagstuð...

Var í heimsókn hjá frænku minni í fyrrakvöld, sem er kannski ekki í frásögur færandi þar sem ég á nokkrar af því taginu, en það sem bar á góma var nokkuð merkilegt.

Hún er þrítug eins og ég (plús 6 mán.), einhleyp og barnlaus (eins og ég líka), og fær að heyra það ansi oft í vinnunni hvað hún sé heppin, hún hafi nú bara fyrir sér einni að sjá, og hvað það hljóti að vera mikill munur (= ódýrt) að vera bara einn munnur að metta og hvenær hún ætli nú að fara að koma með barn. Sem betur fer virðist það nú bara vera ein samstarfskona hennar sem lætur dæluna ganga um þessi mál, en það sem samt einni of mikið. Þetta eru óskaplega vanhugsaðar athugasemdir, vegna þess að :

a) Af kostnaði við að halda heimili þá eru matarinnkaup langt frá því stærsti hlutinn. Sérstaklega ef maður kæmist upp með það að versla bara fyrir einn og þyrfti aldrei að henda mat. Langstærsti hluti launanna fer í húsnæðið, og það fær maður ekki á helmingsafslætti bara af því að maður er einn og með einar tekjur. Aðrir kostnaðarliðir sem ánægjulegt væri að geta deilt með öðrum eru húsgögn, nettenging, fastagjald síma, tölva, og jafnvel sjónvarp. Þetta fær maður heldur ekki á helmingsafslætti ef maður hefur bara einar tekjur til að greiða af.

b) Kostnaður við það að eignast barn er bara ansi stór biti fyrir heimili sem hefur ekki nema einar tekjur (og jafnvel fyrir þau heimili sem hafa tvennar). Matarkostnaðurinn rýkur kannski ekki upp úr öllu valdi við það eitt nema kaupa þurfi sérfæði ofaní barnið. Húsnæðiskostnaður þarf ekki að aukast heldur, allavega ekki fyrst um sinn. En maður minn, allt hitt! Bleyjupakkar! Barnarúm! Barnaföt! Grindur fyrir stiga! Dagmamma! Barnavagn! Jafnvel bíll, nema viðkomandi treysti sér
með reglulegu millibili til að bera barn framan á sér og 2-3 troðfulla poka af matvörum í höndunum. Og þann bíl þarf þá að tryggja, fylla reglulega af eldsneyti og mæta ófyrirséðum viðgerðum.

Það er líka alveg merkilegt hvað sumum finnst miklu muna ef þau eru tvö, þá kosti svo og svo mikið fyrir þau saman að fara út að borða eða í bíó eða í Bláa Lónið, vs. ef viðkomandi er bara einn þá kosti það helmingi minna. Þetta fólk virðist gleyma því að hlutfallslega er verðið nákvæmlega það sama; ein manneskja = einar tekjur = einfalt verð.


Þannig að, ef þið sem hafið bara einn munn að metta mætið athugasemdum á borð við hversu gott það hljóti að vera, verið þá snögg að benda viðkomandi á hversu mikill munur það sé líka að fá að sjá um greiðslu skulda og reksturs heimilis af einum tekjum.
Ef einhver er spyr hvort það sé ekki kominn tími á barn (hvort sem þú ert karl- eða kvenkyns), þá er hægt að segjast vera að safna fyrir tæknifrjóvgun, að ásættanleg leigumóðir hafi ekki fundist eða að gott genamengi sé ekki á hverju strái. Eða að maður sé hreinlega ófrjór sökum sjúkdóms/slyss/fæðingargalla. Því hvað kemur það öðru fólki við af hverju ekkert barn sé komið eða á dagskrá?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home