Drottning Viðmiðunarinnar

miðvikudagur, október 04, 2006

Hinir teygjanlegu fermetrar

Þetta var skráð í gær. Vegna tengslaleysis Blogger þá tókst ekki að pósta þetta þá.

Hér hefur töluvert verið kvartað yfir bloggleysi, og mun ég bæta úr því með kvörtun úr mínu horni. Kannski er þetta ekki eiginleg kvörtunarfærsla þar sem ég er væntanlega ekki að kvarta við neitt ykkar sem les færsluna, og svona kvartanir út í loftið flokkast á þann líklegast undir pirringsútrás.

Það sem er nýtt af mér að frétta er væntanlega það sem flestir vina minna vita nú þegar; flutningsmál. Ég er flutt af svæðinu utan borgarinnar og inn í höfuðborgina sjálfa, nú í hjólafæri við vinnuna og miðbæinn og ekkert nema gott um það að segja.
En af leigusalanum segi ég farir mínar ekki fyllilega sléttar. Þegar ljóst var í sumar að íbúðin skyldi losna með haustinu þar sem þáverandi leigjanda (mér vel kunnugum) byðist hentugra húsnæði einhverntíman með haustinu, þá bauð sá leigjandi mér meðmæli í þessa tilteknu íbúð, sem ég þáði. Og í samtali við leigusalann var talað um að stærð íbúðarinnar væru 38 fm. auk fleiri fermetra af gólffleti þar sem íbúðin er töluvert mikið undir risi. Umtalað verð var 45 þús. á mánuði með hita; rafmagn skyldi greitt sér. Þetta leist mér mjög vel á, og þrátt fyrir að eldhúskrókurinn og baðherbergið séu óþægilega mikið undir súð og íbúðin einungis innangeng frá forstofu leigusalans, þá sá ég þetta sem ágætis verð og tók því þegar mér var tilkynnt (í júlí) að þau hjónin hefðu ákveðið að leigja mér.

Svo klárast sumarið og í byrjun annarar viku septembermánaðar flyt ég inn. Þar sem ég var ekki búin að finna leigusamning (því ég vildi hafa einn slíkan) og síðar vegna anna í vinnu og námi, þá ræddum við ekkert um framvindu, greiðslufyrirkomulag og slíkt fyrr en rétt fyrir þessi mánaðarmót þegar ég birtist með samninginn (enda vantaði mig líka upplýsingar um bankareikning til að leggja inn á, svo ekki var seinna vænna).

Þegar ég bar samninginn minn undir fyrri leigjanda í því skyni að fylla sem mest út áður en ég bæri hann til undirskriftar, þá kom í ljós að á þeim samningi stendur að íbúðin sé ekki nema 30 m2. Leigusalinn skráði það hinsvegar á samninginn minn að fermetrar séu tæpir 40, og virtist ekkert kannast við neitt minna þegar ég síðar minntist á mismun þess samnings sem við gerðum og þess sem gerður var fyrir 2 árum við annan aðila (mun sem ég var þá búin að fá endurstaðfestan). Þar sem þessi mismunur pirraði mig töluvert þá ákvað ég að hringja í Fasteignamat Ríkisins til að fá botn í þetta, og geta þá hætt að pirra mig ef íbúðin væri nær 38 m2 en 30. Steininn tók úr þegar mér var þar tjáð að löglegir fermetrar væru 26. Tuttuguogsex! Og þrátt fyrir að ég viðurkenni hentugleika ríflegs gólfpláss (sem nýtist þó ekki fyllilega) þá finnst mér töluvert muna á 26 m2 og "tæplega 40"!!

Annar steinn sem samningurinn steytti á, var sú upphæð sem leigusalinn áætlaði mér í rafmagns- og hitanotkun. Því nú var hitinn skyndilega ekki inni í leiguupphæðinni, ekki er enn búið að skipta rafmagninu (nokkuð sem ég hélt að hefði verið frágengið í júlí þegar ég ræddi við hann) og hann taldi rétt að orkunotkun mín yrði 5000 kr. á mánuði.
Eftir að hafa rætt við 4-6 mismunandi aðila þá komst ég að þeirri niðurstöðu að 5000 kr. á mánuði fyrir einstakling sem ekki á þvottavél, þurrkara né örbylgjuofn, eldar sjaldan og horfir lítið á sjónvarp, í 26 m2 (ekki 38!) risíbúð væru afar ríflega áætlaðar, og minntist á það við leigusalann. Sá vildi nú kanna málið betur og spyrjast fyrir um það víðar, og í dag hafði hann svo samband við mig og tjáði mér að Orkuveitan segði sér að 4500 kr. væru viðmið fyrir einstakling í íbúð af þessari stærð ("tæplega 40 m2"). Þessi sama Orkuveita vildi ekki gefa mér upp neina áætlun, "hvort sem það eru 1800 eða 2000 kr. eða hvað" þegar ég hringdi í gær, en tjáði mér að ég yrði bara að komast að samkomulagi við eigandann. En þar sem ég vil ekki koma upp illindum tók ég því hundsbiti og játti þessum dómi leigusalans bara. Mér finnst þetta samt sem áður afar grunsamleg tala í ljósi þess að ég greiddi að meðaltali 3800 kr. á mánuði fyrir um 70 m2 íbúð þegar ég bjó á Skagaströnd, og þar er allt hitað með rafmagni því jarðhiti finnst ekki.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að leiga hefur almennt verið að hækka, en mér finnst full svart að stækka íbúð á pappírum og hækka leiguverð með því að smyrja ríflega á áætlaða orkunotkun eftir að munnlegt samkomulag hefur verið gert. Því hefði ég vitað í upphafi að okkar munnlega samkomulag væri svona sveigjanlegt hefði ég haft augun opin fyrir einhverju öðru líka. Mér finnst líka all merkilegt að þó þau segist ekki geta leigt mér á sama verði og fyrri leigjanda (breyttir tímar, hún var fyrsti leigjandi o.s.frv.) að þau geti heldur ekki leigt mér á sama fermetrafjölda og henni.

Og nú sé ég mér ekki annað áhugavert að gera en að kynda vandlega upp í ofnunum og kveikja ljósin sem oftast og mest svo ég geti nýtt mér að sem mestu leyti þá orkunotkun sem verið er að láta mig greiða.

6 Comments:

  • Ég held að þú ættir nú þegar að fara að leita þér að annari íbúð. Ég veit að markaðurinn er 'hell' en um leið og þú færð tækifæri til að flytja frá þessum svikahröppum og steliþjófum þá ættirðu að gera það.

    Það er nú ekki oft sem maður heyrir um að íbúðir hafi minnkað á milli vikna - ætli þau hafi soðið hana eftir að vinkona þín flutti út?

    By Anonymous Nafnlaus, at 4/10/06 12:16  

  • Já mér finnst nú heldur illa með þig farið þarna:(

    Kveðja,
    Eyrún

    By Anonymous Nafnlaus, at 4/10/06 12:34  

  • Ein lausn: Þú gætir hafið hassræktun. Það þarfnast mikils rafmagns og ætti að gefa þér aukatekjur í leiðinni.

    - Þarfagreinir sem getur ekki kommentað á blogg sem ekki tilheyra Blogger Beta.

    By Anonymous Nafnlaus, at 4/10/06 18:14  


  • hér er síða þar sem hægt er að fá nokkuð nákvæma orkukostnaðar útreikninga. http://www.or.is/Forsida/Reiknivelar/

    þar sem ég er rafmagnsmenntaður þá tel ég mig hafa möguleika á að giska á að þú sem einstaklingur í (38)fermetra íbúð sért að nota algert hámark rafmagn og hita fyrir um 2500-3000 krónur, það væri meira að segja miðað við nokkuð mikla notkun. skoðaðu þessa stóru reiknivél þá færðu svona c.a rafmagns og vatnsnotkun. Ef þú hefur sér aðgang að rafmagnstöflunni er líka hægt að mæla út rafmagnsnotkun mjög nákvæmlega

    kv
    Rafmagnsmaðurinn

    By Anonymous Nafnlaus, at 4/10/06 21:37  

  • Ég þakka Rafmagnsmanninum kærlega fyrir upplýsingarnar. Ég hef reyndar ekki sér aðgang að rafmagnstöflunni svo ég get ekki kynnt mér þetta fyllilega, auk þess sem ég kann ekki við að fara að heimta það núna að þau segi mér nákvæmlega hvað þau séu að borga fyrir hita + rafmagn og heimti að ég greiði einungis hlutfall minnar íbúðar af því.
    Þar fyrir utan grunar mig að þau hjónin séu með ansi rafmagnsfreka atvinnustarfsemi í bílskúrnum hjá sér. En þó hlyti kostnaður við þann atvinnurekstur að vera aðskilinn heimilishaldi, hefði maður haldið.

    By Blogger Queen of Norm, at 4/10/06 21:54  

  • Mér finnst þetta alveg fáránlegt og þú mátt ekki láta koma svona fram við þig. Þú segir að þú viljir ekki koma af stað leiðindum sem ég skil alveg en eru þau ekki nú þegar komin upp? Ég myndi tala við gaurinn og byrja á því að leita að nýrri íbúð sem fyrst.

    By Anonymous Nafnlaus, at 9/10/06 21:08  

Skrifa ummæli

<< Home