Drottning Viðmiðunarinnar

sunnudagur, maí 07, 2006

Kveðja frá Hvammstanga

Ég eyddi helginni á Hvammstanga. Í Lyngholti af Helguhvammslandinu, nánar tiltekið (eða Kothvamms?) og naut þar veðurblíðu, fuglasöngs og hvítvíns. Sökum óuppgerðs pirrings skráði ég heldur stuttlega í gestabókina, en vonandi verður bætt um betur næst.

Tilgangurinn með þessari færslu er hinsvegar vakning máls á framtíð fyrrum grænmetisgarðsins, og bið ég ættingja mína í móðurætt því að sperra upp augun og lesa það sem eftir kemur. Hinir mega hætta þegar þeir vilja og verða ekki krafðir álits (en mega að sjálfsögðu skilja eftir spor sín í athugasemdakerfinu hér að neðan).

"Græmetisgarðurinn", sem eftir mínu minni hét reyndar ekkert sérstakt, er það svæði þar sem ræktaður var rabbabari og gulrætur og fleira gaf þeim ættum, og reykkofinn stóð við. Þar er allt í órækt. Allt-allt-allt. Grasið næði fullvaxinni konu (því nú erum við mest konur í arflegg) hálfa leið upp í mitti ef það gæti staðið upp á endann. Trén svo kræklótt að halda mætti að þau væru í abstraktkeppni sín á milli. Og ekki hægt að ganga með góðu móti um garðinn fyrir úrsérbreiddum trjám. Væri ekki gaman að koma saman eins og eina helgi og tæma hlöðuna (sem inniheldur nú antík-hey) og jafnvel reyna að berja saman í nýja hurð fyrir hana svo hún verði vel aðgengileg að utan, og hreinsa upp garðinn svo hægt sé að ganga um hann á ný og setjast niður í skjóli innan um laufguð tré?
Tjáið ykkur nú endilega, elskurnar mínar.

9 Comments:

  • Mér líst vel á þetta :) Held samt að það verði erfitt að finna helgi sem allir komast en ég mæti ef ég mögulega get.

    By Anonymous Nafnlaus, at 7/5/06 23:22  

  • Gleymdi að skrifa nafnið mitt en þetta var María :)

    By Anonymous Nafnlaus, at 7/5/06 23:23  

  • Jahá- það er gott mál að taka til hendi í Lyngholti.Mér er fullkunnugt um vöxt trjáa og stráa í ,,garðinum". Hitt er svo annað mál að þó allir ættingjar mæti tekst ekki á einni helgi að ráða bragarbót á þessum vexti. En einhvers staðar og einhvern tíma þarf að byrja.
    Antik heyið er strangt til tekið ekki eign Lyngholts, heldur Agnar í Grænahvammi sem fékk skjólhús yfir umfram hey fyrir margt löngu.Ég held að hún sé um það bil að hætta öllu fjárstússi svo henni er varla eftirsjá að heyinu ( sem er sennilega ónýtt)

    By Anonymous Nafnlaus, at 8/5/06 21:49  

  • ég skal borða grænmetið þegar þið hafið tekið til í garðinum

    nei annars ég væri til í þetta en það vantar eitthvað frumkvæði til að smala saman og drífa sig á stað.
    kv. Hannes

    By Anonymous Nafnlaus, at 8/5/06 21:51  

  • Já, er heyið eign Agnar? Ég spurði nefnilega hann Jón Ágústsson og hann hélt eins að þetta væri hey frá þeim tíma er amma var á lífi. En það má þá allavega komast að því hvað Ögn hyggst fyrir um heyið.

    By Blogger Queen of Norm, at 8/5/06 21:57  

  • Hver skrifaði löngu færsluna? Auðvitað drottningarmóðirin sem kann ekki að svar bloggi á venjubundin hátt.

    Kv.MBj.

    By Anonymous Nafnlaus, at 9/5/06 11:40  

  • Ég kem ekki nálægt þessu forna heyi, það er örugglega búið að rækta í sér einhverjar holdétandi bakteríur. Eli Roth leikstjóri hryllingsmyndanna Cabin Fever og Hostel fékk hryllilegan húðsjúkdóm þegar hann var að henda gömlu heyi á Íslandi og rakaði óvart af sér húðina.

    En ég er hins vegar alveg til í að búa til grænmetisgarð.

    By Blogger Berglind Björk Halldórsdóttir, at 9/5/06 13:13  

  • Hæ hæ Gréta
    Mér finnst frábært að þið "unglingarnir" viljið taka til hendinni í Lyngholti. Við hinir unglingarnir viljum það örugglega líka ef við komumst. Maður veit aldrei hvenær maður er á lausu í sumar. En væri ekki ágætt að ákveða einhverja helgi sem ætti að gera eitthvað og þeir sem gætu færu norður og hefðu frja´sar hendur að gera það sem þeir vildu? Og svo yrði haldið áfram með það einhverja aðra helgi.

    By Anonymous Nafnlaus, at 13/5/06 21:28  

  • Já og ég væri alveg til í að djöflast í gamla heyinu. Maður getur oft haft gaman af að vinna í einhveju svolítið ógeðslegu svona annars lagið
    kv. Guðný

    By Anonymous Nafnlaus, at 13/5/06 21:37  

Skrifa ummæli

<< Home