Drottning Viðmiðunarinnar

fimmtudagur, apríl 13, 2006

Skrúfukjaptur

Í gær átti sú breyting á munnholi mínu sér stað, að skellt var skrúfu þangað sem einn af öftustu jöxlunum mínum átti sér fyrrum samastað. Það var þó ekki endajaxl sem fékk að víkja, enda eru þeir allir löngu horfnir á veiðilendurnar víðlendu, ef svo má segja. Nei, þessi jaxl fékk reisupassann í janúar, eftir uppsteit og aðvörun í kjölfarið. En í janúar var útséð með að þessi jaxl væri ekki lengur hæfur í starfi sínu og var dreginn öskrandi og íhaldssamur út af tveimur tannlæknum á heilum 50 mínútum. Ekki var það einungis jaxlgreyinu að kenna, heldur hinu trausta tannbeini sem af einhverjum [persónulegum] ástæðum neitaði að sleppa kauða.
En nú hefur verið fyllt upp í það skarð sem jaxlinn skildi eftir sig með manngjörðri og heldur ópersónulegri skrúfu sem verður svo krýnd seinnihluta sumars.

Og það er merkilegt hve lítil óþægingdi ég upplifði í kjölfarið af aðgerðinni, og bólgan lítil og löðurmannleg. Eins og ég var nú búin að búa mig andlega undir það versta og gott betur, sá fyrir mér að ég lægi sárkvalin uppi í rúmi allan daginn eftir aðgerðina og í dag, ófær um eitt né neitt nema þjást og vorkenna sjálfri mér. En nei, mér varð ekki kápan úr því klæðinu. Sem er vel.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home