Drottning Viðmiðunarinnar

föstudagur, febrúar 23, 2007

Og í framhaldi af minni færslu þá vil ég benda á aðra af sama meiði hjá Norninni.
Færsluna er að finna hér.

Fordómafulla smáþjóðin í norðri

Það er þá orðið opinbert: Íslendingar eru ekki lengur "hipp og kúl" heldur kreddufullir smáborgarar á eyju langt úti í hafi þar sem dýrtíðin er ævarandi árstíð.

Klámfólkið má ekki koma í hóp til Íslands. Og bara helst ekki koma yfir höfuð. Allavega ekki gista á "virðulegum" hótelum. Kannski ekki heldur á tjaldsvæðinu í Laugardal. Því fólk sem hefur áhuga á klámi er sko ekki velkomið hér. En bandarískir útlagar (Bobby Fisher) og erlendir ofsastjórnmálamenn (forseti Kína) eru velkomnir. Og vinum hins íslenska forsetavalds skyldi enginn mótmæla!

Kannski má snúa þessari þjóðarstefnu upp í allsherjar lygavef þar sem Íslendingum er talin trú um að þeir séu hreint út sagt aaæææði og að aaallir elski okkur. T.d. væri hægt að skylda alla blaðamenn, komi þeir tveir eða fleiri saman, til að skrifa eina grein um hversu frábær og fögur land & þjóð eru, og fá hana birta í Reykjavík Grapevine. Algjörlega óháð því hvort þessir blaðamenn séu komnir hingað í sumarfrí eða í persónulegum tilgangi. Og því líkt egóbúúst sem slíkar greinar yrðu! Vítamínsprauta fyrir smáþjóð með smáþjóðarkomplexa.

Ég vona að Bændasamtökin (sem eiga Hótel Sögu) verði illa úti í sumar fyrir það að geta ekki staðið með sínum gestum. Og ég vona að íslenskir stjórnmálamenn lendi í því í sínum næstu heimsóknum erlendis að vera spurðir hvort Íslendingar muni héreftir óska þess að fólk útlisti nákvæmlega atvinnu, áhugamál og tilgang komu sinnar við kaup á farseðli til Íslands. Og ég vona að fræga fólkið hætti að koma hingað til lands, svo að Íslendingar átti sig á því að Ísland er ekki hipp og kúl, heldur bara lítið land byggt fámennri þjóð með svo stórt egó að það skyggi á raunsæi þeirra.

Við erum nú opinberlega hleypidómafull og þröngsýn þjóð.
TIL HAMINGJU ÍSLAND !!!