Drottning Viðmiðunarinnar

fimmtudagur, mars 30, 2006

Landið og miðin

Drottningin er upp risin að nýju og sest að á Skagaströnd. Fram í júní, þ.e.a.s.
Þar kennir hún 1.-8. bekk mynd- og handmennt ásamt smíðum. Fysta vikan brátt liðin og tilhlökkunin mikil, því hálfgert rótleysi hefur fylgt kennslunni þessa vikuna. Krakkarnir hafa verið kennaralausir síðan um síðustu mánaðarmót (í áðurnefndum greinum) og engin kennsluáætlun fyrir það sem eftir lifir vetrar, sem þýðir að maður hefur þurft að spila töluvert eftir andanum hverju sinni.

Nánari útlistanir síðar.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Það var svosem auðvitað

Mér hefur borist kvörtun og er ég vel að henni komin, en hún fjallaði um [meinta] leti mína hér. Kannski hefur hún stafað af hugsana- og fréttaleysi, eða af netleysi (right!) , en ég tel þó öllu líklegra að færsluletin stafi af upptekt undirritaðrar. Það er nefnilega merkilega mikill tími sem fer í það að vinna og vera jafnframt að leita sér að vinnu. Jájá, allt vill konan og meira til.

En já. Á sunnudaginn var héldu Kammerkór Hafnarfjarðar og Kammersveit Hafnarfjarðar stórglæsilega og ofuráheyrilega Mozart-tónleika í Víðistaðakirkju, þar sem sveitin lék konsert ... og flutti svo Missa Solemnis ofl. ásamt kórnum.

Ég er byrjuð að vinna í bókhaldinu á Framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar þar til ég fer norður á Skagaströnd (marslok - júníbyrjun) og hefur verið boðið starf þar í sumar. Ekki sem verst, þó starfið sé kannski ekki alveg það sem ég sá fyrir mér þegar ég var í LHÍ, þá eru launin betri en á Lansanum og möguleiki á yfirvinnu fyrir hendi. Skítt hvað umönnunarstörf og ófaglærð ríkisstörf eru illa launuð. Ég var nefnilega að spá í ákveðið umönnunarstarf í sumar, en þó sú vinna sé kannski meira gefandi en móttökuskráning reikninga, þá eru launin þar einhverjum tveimur þúsundköllum hærri en ritarastarf á Lsp. og það er bara skítlélegt. Finnst mér. Svo verður fróðlegt (eða ekki...) að vita hvað verður eftir sumarið. Kannski kemst ég í ásættanlegt skrifstofustarf með haustinu.

En morgundagurinn ber með sér ferðalag. Ég mun leggja land undir dekk og skreppa út á land að skoða staðarhætti og mannlíf á Skagaströnd. Svo kem ég bara heim einhverntíman um helgina.