Drottning Viðmiðunarinnar

mánudagur, júlí 28, 2008

Nú er það spurning....

Á ég, eða á ég ekki að taka þetta blogg upp aftur?

Nú þegar Andrea mín kær er farin að velta fyrir sér kostum Blogger vs. kostum Acme, þá þyrlast upp spurningar í hausnum á mér. Og ef Blogger er farinn að haga sér sem skyldi (endalaust skráningarvesen var ástæða þess að ég hætti hér á sínum tíma) og Evert the stalker hefur hvort eð er upp á hverju einasta bloggi sem ég stofna, þá er kannski engin ástæða að útiloka þetta landsvæði drottningarinnar. Því það er ekki hver sem er sem getur verið (og vill vera) The Queen of Norm.

Ég veit það líka fyrir víst að einhverjir aðilar hlekkja ennþá inn á þetta blogg sem mitt aðalsvæði, svo kannski er það ekki al-dautt, greyið.

Bestu kveðjur, og við sjáumst næst.

sunnudagur, mars 25, 2007

Prúðuleikararnir

Síðustu helgi greip mig ómótstæðileg þörf til hitta ættingja, og höguðu örlögin því þannig að leið mín lá á Kárastíginn, þar sem ég get fundið 4 gæðaeintök af slíku fólki. Og það var heldur betur ferð til fjár. Bæði fékk ég kaffi og góðgerðir (sem næstu gestir komu með - ekki bara eru þetta frábærir ættingjar heldur eiga þau líka frábæra vini! - ) og svo fyrstu þáttaröðina með Prúðuleikurunum lánaða.

Prúðuleikararnir voru æði. Prúðuleikararnir eru æði. Hvílík snilld sem þessir þættir eru (og hve súr sum atriðin eru) !! Og það að fá landsþekkta einstaklinga til að syngja með brúðum finnst mér líka stórkostlegt. Þarna sá ég m.a. Charles Aznavour (hver svo sem það er) syngja fyrir brúðu-grasmaðk og ræða við handbrúðu-brauð. Og Harvey Korman klæddan í skyndi upp sem risa-kjúkling eftir að hann kvartaði yfir því að sér fyndist hann svo útundan innan um "castið", verandi eina ó-brúðan.

Þrátt fyrir allar tæknibrellur nútíma kvik- og teiknimynda, þá finnast mér Prúðuleikarnir hafa elst einstaklega vel. Og varnarorð eiganda seríunnar um að þeir séu ekki eins fyndnir núna og þeir voru þegar maður var 7 ára (eða hvað það nú var) ná ekki til mín. Kannski er ég enn 7 ára í hjarta og hjärna.

MUPPARNA STYRER !!

Ekkert

Þegar ég fór í Bónus um daginn mætti ég tveimur ungum mönnum sem voru að gefa 2ja lítra flöskur af Coke Zero. Being a sucker for free goods þá þáði ég eina slíka, þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar um að þetta sull skyldi ég sko ekki drekka. Nafnið (og hvað þá auglýsingaherferðin!) væri hallærislegt og vísaði í mínum hug ekki einasta í sykurleysi, heldur líka í bragðleysi, tilgangsleysi og almennan skort á öllu góðu. En flöskuna þáði ég, og braut þar með fyrsta odd af oflæti mínu.

Það brot gekk aðeins lengra niður þegar ég opnaði flöskuna svo tveimur dögum seinna, og smakkaði drykkinn, því einhversstaðar hafði ég lesið það að einhverjum þætti áðurnefndur drykkur alls ekki slæmur þrátt fyrir fyrri trú á hið gagnstæða, og kannski, rétt kannski ætti mitt viðhorf eftir að breytast. Það væri þá betra að uppgötva það fyrr en síðar og jafnvel þá í einrúmi, verandi yfirlýsingaglöð manneskja sem vílar ekki fyrir sér að segja skoðun sína á vörum og þjónustu (stundum). Prufuna endurtók ég svo aftur tveimur dögum síðar, svona til að endanlegar niðurstöður myndu síður litast af ástandi mínu og bragðlaukanna í fyrra skiptið.

Niðurstaðan : Coke Zero á tvennt sameiginlegt með íslensku vatni. Það er bragðlaust og gott kalt.
Munurinn er hinsvegar sá að á meðan ég get svolgrað í mig 1,5 líter af vatni á 8 klst. vinnudegi, þá kem ég bara niður einu glasi af Coke Zero á sama tímabili. Því einhvernveginn þá ... er Núllið bara ekki nógu gott.

laugardagur, mars 17, 2007

Flickr !

Jæja, nú er ég farin að reyna (eftir bestu getu) að setja myndir á Flickr.
Hér má finna þær.
Enn sem komið er eru bara komnar inn myndir frá Kaupmannahöfn og nokkrir munaðarleysingjar, en úr því verður vonandi bætt í næstu viku.

föstudagur, febrúar 23, 2007

Og í framhaldi af minni færslu þá vil ég benda á aðra af sama meiði hjá Norninni.
Færsluna er að finna hér.

Fordómafulla smáþjóðin í norðri

Það er þá orðið opinbert: Íslendingar eru ekki lengur "hipp og kúl" heldur kreddufullir smáborgarar á eyju langt úti í hafi þar sem dýrtíðin er ævarandi árstíð.

Klámfólkið má ekki koma í hóp til Íslands. Og bara helst ekki koma yfir höfuð. Allavega ekki gista á "virðulegum" hótelum. Kannski ekki heldur á tjaldsvæðinu í Laugardal. Því fólk sem hefur áhuga á klámi er sko ekki velkomið hér. En bandarískir útlagar (Bobby Fisher) og erlendir ofsastjórnmálamenn (forseti Kína) eru velkomnir. Og vinum hins íslenska forsetavalds skyldi enginn mótmæla!

Kannski má snúa þessari þjóðarstefnu upp í allsherjar lygavef þar sem Íslendingum er talin trú um að þeir séu hreint út sagt aaæææði og að aaallir elski okkur. T.d. væri hægt að skylda alla blaðamenn, komi þeir tveir eða fleiri saman, til að skrifa eina grein um hversu frábær og fögur land & þjóð eru, og fá hana birta í Reykjavík Grapevine. Algjörlega óháð því hvort þessir blaðamenn séu komnir hingað í sumarfrí eða í persónulegum tilgangi. Og því líkt egóbúúst sem slíkar greinar yrðu! Vítamínsprauta fyrir smáþjóð með smáþjóðarkomplexa.

Ég vona að Bændasamtökin (sem eiga Hótel Sögu) verði illa úti í sumar fyrir það að geta ekki staðið með sínum gestum. Og ég vona að íslenskir stjórnmálamenn lendi í því í sínum næstu heimsóknum erlendis að vera spurðir hvort Íslendingar muni héreftir óska þess að fólk útlisti nákvæmlega atvinnu, áhugamál og tilgang komu sinnar við kaup á farseðli til Íslands. Og ég vona að fræga fólkið hætti að koma hingað til lands, svo að Íslendingar átti sig á því að Ísland er ekki hipp og kúl, heldur bara lítið land byggt fámennri þjóð með svo stórt egó að það skyggi á raunsæi þeirra.

Við erum nú opinberlega hleypidómafull og þröngsýn þjóð.
TIL HAMINGJU ÍSLAND !!!

þriðjudagur, desember 26, 2006

skróparar...!

Þeir sem ekki mættu í laufabrauðsútskurðinn fyrr í mánuðinum voru:

Ragnheiður Hlíf
Atli Már
Björn Óðinn
Eyrún
Magga
Siggi

Þau einu sem hafa löggilda afsökun voru þau þrjú síðastnefndu, því þau eru öll hinumegin á hnettinum og áttu ekki "heiman"gengt.
Hin verða öll úthrópuð hér þegar heilinn [minn] kemst aftur í notkun eftir jólafrí.

föstudagur, desember 15, 2006

Er einhver sem ég þekki á leið til Dalvíkur fyrir jólin? Frá Höfuðborgarsvæðinu? Ef svo er, þá má sá hinn sami (eða sú hin sama) gjarnan hafa samband við mig, svo hann/hún geti gert mér greiða (og glaðst yfir því í hjarta sér).

Því það er svo jóló.


fimmtudagur, desember 14, 2006

Ilmur af jólum...

Á morgun verður laufabrauðsútskurður í Holtsbúðinni!!
Þrátt fyrir að annað höfuð ættarinnar sé erlendis að sóla sig og dansa samba, þá reikna ég fastlega með að þær móðir mín og Guðný frænka (eða Herdís?) muni halda uppi hraða og afli í útflatningu og steikingu.

Þá verðum við hin bara að standa okkur í útskurðinum.

Og þeir sem skrópa í útskurðinn án þess að framvísa löggildri og góðri afsökun í dróttkvæðum hætti * verða nafngreindir og úthrópaðir hér á síðunni.

* við nánari íhugun hefur verið ákveðið að taka einnig við löggildum og góðum afsökunum í formi limra, ferskeytlna og allra hátta sem Eddukvæðin hin rammíslensku (líkt og laufabrauðið) bjóða upp á.

miðvikudagur, desember 13, 2006

miðvikudagstuð...

Var í heimsókn hjá frænku minni í fyrrakvöld, sem er kannski ekki í frásögur færandi þar sem ég á nokkrar af því taginu, en það sem bar á góma var nokkuð merkilegt.

Hún er þrítug eins og ég (plús 6 mán.), einhleyp og barnlaus (eins og ég líka), og fær að heyra það ansi oft í vinnunni hvað hún sé heppin, hún hafi nú bara fyrir sér einni að sjá, og hvað það hljóti að vera mikill munur (= ódýrt) að vera bara einn munnur að metta og hvenær hún ætli nú að fara að koma með barn. Sem betur fer virðist það nú bara vera ein samstarfskona hennar sem lætur dæluna ganga um þessi mál, en það sem samt einni of mikið. Þetta eru óskaplega vanhugsaðar athugasemdir, vegna þess að :

a) Af kostnaði við að halda heimili þá eru matarinnkaup langt frá því stærsti hlutinn. Sérstaklega ef maður kæmist upp með það að versla bara fyrir einn og þyrfti aldrei að henda mat. Langstærsti hluti launanna fer í húsnæðið, og það fær maður ekki á helmingsafslætti bara af því að maður er einn og með einar tekjur. Aðrir kostnaðarliðir sem ánægjulegt væri að geta deilt með öðrum eru húsgögn, nettenging, fastagjald síma, tölva, og jafnvel sjónvarp. Þetta fær maður heldur ekki á helmingsafslætti ef maður hefur bara einar tekjur til að greiða af.

b) Kostnaður við það að eignast barn er bara ansi stór biti fyrir heimili sem hefur ekki nema einar tekjur (og jafnvel fyrir þau heimili sem hafa tvennar). Matarkostnaðurinn rýkur kannski ekki upp úr öllu valdi við það eitt nema kaupa þurfi sérfæði ofaní barnið. Húsnæðiskostnaður þarf ekki að aukast heldur, allavega ekki fyrst um sinn. En maður minn, allt hitt! Bleyjupakkar! Barnarúm! Barnaföt! Grindur fyrir stiga! Dagmamma! Barnavagn! Jafnvel bíll, nema viðkomandi treysti sér
með reglulegu millibili til að bera barn framan á sér og 2-3 troðfulla poka af matvörum í höndunum. Og þann bíl þarf þá að tryggja, fylla reglulega af eldsneyti og mæta ófyrirséðum viðgerðum.

Það er líka alveg merkilegt hvað sumum finnst miklu muna ef þau eru tvö, þá kosti svo og svo mikið fyrir þau saman að fara út að borða eða í bíó eða í Bláa Lónið, vs. ef viðkomandi er bara einn þá kosti það helmingi minna. Þetta fólk virðist gleyma því að hlutfallslega er verðið nákvæmlega það sama; ein manneskja = einar tekjur = einfalt verð.


Þannig að, ef þið sem hafið bara einn munn að metta mætið athugasemdum á borð við hversu gott það hljóti að vera, verið þá snögg að benda viðkomandi á hversu mikill munur það sé líka að fá að sjá um greiðslu skulda og reksturs heimilis af einum tekjum.
Ef einhver er spyr hvort það sé ekki kominn tími á barn (hvort sem þú ert karl- eða kvenkyns), þá er hægt að segjast vera að safna fyrir tæknifrjóvgun, að ásættanleg leigumóðir hafi ekki fundist eða að gott genamengi sé ekki á hverju strái. Eða að maður sé hreinlega ófrjór sökum sjúkdóms/slyss/fæðingargalla. Því hvað kemur það öðru fólki við af hverju ekkert barn sé komið eða á dagskrá?

þriðjudagur, desember 12, 2006

að dreyma tölur

Veit einhver hvað það þýðir að dreyma tölur / upphæðir?
Sá fróðleiksmaður (eða -kona) er þá vinsamlegast beðin(n) um að gefa sig fram.

Um helgina dreymdi mig nokkra ósköp furðulega drauma, en þó stóð upp úr einn draumur þar sem einhver hafði látið flytja dágóða upphæð af bankareikningi annars yfir á bankareikning einhvers fyrirtækis (hvers nafn var skammstafað með 4-5 gráum stöfum, feitletruðum) og þaðan yfir á sinn eigin reikning. Upphaflegi eigandi fjárupphæðarinnar þurfti því að taka stórt lán til að geta mætt útgjöldum sínum, og var ekki sáttur.
Til að gera langa sögu stutta og sleppa öllum tilfinningalegum hræringum (sem og hvaða leikarar léku þetta fólk í draumnum) þá eru tölurnar sem máli skipta, eftirfarandi:

Upphæðin sem stolið var : 1200000(0)
Upphæðin sem bankalánið nam : 1.183.000 (eða 11.830.000*)
Mánaðarleg afborgun af láninu : 135 þús.

* Stolna upphæðin var ansi há (fyrir meðalmanninn, en hljómaði þó í hjarta mér nær 60 milljónum en "aumingjalegum" 12), og því tel ég 12 milljónir vera mun líklegri en 1,2. Þar sem sú upphæð birtist mér þannig að fyrst kom 12 og svo runa af núllum í kjölfarið, þá get ég ekki svarið fyrir hversu mörg þau voru. Bankalánið, sem var næstum jafn hátt og stolna upphæðin, birtist hinsvegar á afar skilmerkilegan hátt með punktum á réttum stöðum (sjá að ofan). En hafi stolna upphæðin verið 12 milljónir þá hlýtur (sjón)minni mitt að hafa eitthvað brenglast og fyrsti punkturinn á eftir báðum 1-unum í staðinn fyrir að vera á milli þeirra.
Mánaðarlega útborgunin var hinsvegar sögð [eitthvað meira] upphátt [en hinar] og því birtist hún einungis sem 3ja stafa tala með "þús." fyrir aftan.

Og spurning vikunnar er : Veit einhver hvað þetta þýðir?

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

jólalögin

Í Blaðinu í gær voru nokkrir þekktir einstaklingar spurðir út hvert væri þeirra uppáhalds jólalag, og hvaða lag þeir þyldu síst (eða fyndist lélegast). Hefði ég verið spurð út í hið síðarnefnda, þá hefði ég svarað því að þau jólalög sem ég þoli síst eru þau sem innihalda illa saminn og illa hugsaðan texta. Texta sem byggist á því að troða saman í texta eins mörgum orðum og hægt er úr "jólaorðapottinum", og tengja þau með sagn- og lýsingarorðum. Textar sem segja ekki neitt nema að vitna í Bókarsögur og eru að tapa sér í sögurómantíkinni án þess að skeyta um hvort textinn sé rökréttur*, eða vitna í endalaust gjafaflóð og ljósaflóð og hamingju og jólatré án þess að vera í raun að segja annað en "Mér þykir svo óóóógeðslega gaman á jólunum og þá eru pakkar og þá er svo gaman og það er svo jóló að þykja svona gaman á jólunum". Eða því sem næst. Merkilegt hvað lendir í ruslakistu jólanna.

* Ein íslensk þýðing á jólatexta (hvers frumgerð ég þekki því miður ekki) er á þennan veg: "[F]æddi hún lausnarann hreinni af náð."
Mikið er það nú gott að María skuli hafa miskunnað sig yfir mannkynið og ákveðið að a) ganga með barnið sem hún varð ófrísk af, og b) neita barninu ekki um fæðingu 9 mánuðum síðar. Hún hefði svo auðveldlega haldið því fyrir sig alveg þar til hún dæi og barnið með því. Sem hefði væntanlega gerst mun fyrr en síðar ef barnið hefði fengið að kúra innanborðs í henni langt fram yfir mennskan meðgöngutíma.

Af öðru: föllum við Íslendingar í hrönnum fyrir hlutum/fyrirtækjum sem heita samheitum, eða er það eitthvað sem dagblaðamógúlar trúa bara? Svo ég taki nú dagblaðaflóru (flóru, því pappamassi var eitt sinn tré) okkar sem dæmi. Þar heita blöðin þeim "sérstæðu" nöfnum Blaðið, Fréttablaðið, Morgunblaðið, Dagblaðið... Af þessum nöfnum finnst mér þó Morgunblaðið skást, því það kemur altént á morgnana, meðan öll hin (nema, eins kaldhæðið og það er, Dagblaðið sjálft) falla undir hið almenna samheiti "dagblöð" því þau koma út nánast eða alveg daglega, eða "fréttablöð" því þau eru jú uppfull af fréttum héðan og þaðan.

Hvenær ætli einhverju sjéníinu detti í hug að gefa út blað sem mun heita "Síðdegisblaðið" eða "Kvöldblaðið", eða jafnvel "Virkra-daga-blaðið"? Því þau nöfn eru enn laus, eftir því sem ég best veit.

Ef þetta eru þau nöfn sem Íslenskum blaðaútgefnendum detta í hug, þá vona ég að einhver sýni það frumkvæði að hrista aðeins upp í þessu og gefa út "Alltaf-nema-á-þriðjudögum*" (*eða hvaða vikudegi sem er). Það væri þá allavega gaman að vitna í það blað; "Já, ég sá það í Alltaf-nem'á-þri'judö'm að þeir ætluðu að taka upp Árna-málið..."

mánudagur, október 09, 2006

Hopscotch, eða elskhugi Helenu

Já, París var það, heillin!
Nú er París á næsta leiti og ég hef fengið leiðbeiningar varðandi það hvernig ég komist inn í opna íbúð í úthverfi Parísar til að skila af mér farangri svo ég geti notið borgarinnar með sem fæst aukakíló. Það tekur tvær lestarferðir, göngu fram hjá einhverju pósthúsi, kóðainnslátt og labb upp á 2. hæð. Eeeekkert mál, er mér sagt. Kemur í ljós, kemur í ljós.
Ýmislegt annað hefur komið í ljós, þar á meðal það að gestgjafi minn á aðeins eitt handklæði eins og stendur (að eigin sögn) og því mun ég taka með mitt eigið svo ég geti nýtt mér sturtuaðstöðuna á staðnum án þess að þurfa að gjalda þess með klósettpappír. Og eins og segir í góðri bók þá er ekki slæmt að vera "maður sem veit hvar handklæðið hans er", og þar sem "konur eru líka menn" þá reikna ég fastlega með að þetta eigi við mig líka.

miðvikudagur, október 04, 2006

Hinir teygjanlegu fermetrar

Þetta var skráð í gær. Vegna tengslaleysis Blogger þá tókst ekki að pósta þetta þá.

Hér hefur töluvert verið kvartað yfir bloggleysi, og mun ég bæta úr því með kvörtun úr mínu horni. Kannski er þetta ekki eiginleg kvörtunarfærsla þar sem ég er væntanlega ekki að kvarta við neitt ykkar sem les færsluna, og svona kvartanir út í loftið flokkast á þann líklegast undir pirringsútrás.

Það sem er nýtt af mér að frétta er væntanlega það sem flestir vina minna vita nú þegar; flutningsmál. Ég er flutt af svæðinu utan borgarinnar og inn í höfuðborgina sjálfa, nú í hjólafæri við vinnuna og miðbæinn og ekkert nema gott um það að segja.
En af leigusalanum segi ég farir mínar ekki fyllilega sléttar. Þegar ljóst var í sumar að íbúðin skyldi losna með haustinu þar sem þáverandi leigjanda (mér vel kunnugum) byðist hentugra húsnæði einhverntíman með haustinu, þá bauð sá leigjandi mér meðmæli í þessa tilteknu íbúð, sem ég þáði. Og í samtali við leigusalann var talað um að stærð íbúðarinnar væru 38 fm. auk fleiri fermetra af gólffleti þar sem íbúðin er töluvert mikið undir risi. Umtalað verð var 45 þús. á mánuði með hita; rafmagn skyldi greitt sér. Þetta leist mér mjög vel á, og þrátt fyrir að eldhúskrókurinn og baðherbergið séu óþægilega mikið undir súð og íbúðin einungis innangeng frá forstofu leigusalans, þá sá ég þetta sem ágætis verð og tók því þegar mér var tilkynnt (í júlí) að þau hjónin hefðu ákveðið að leigja mér.

Svo klárast sumarið og í byrjun annarar viku septembermánaðar flyt ég inn. Þar sem ég var ekki búin að finna leigusamning (því ég vildi hafa einn slíkan) og síðar vegna anna í vinnu og námi, þá ræddum við ekkert um framvindu, greiðslufyrirkomulag og slíkt fyrr en rétt fyrir þessi mánaðarmót þegar ég birtist með samninginn (enda vantaði mig líka upplýsingar um bankareikning til að leggja inn á, svo ekki var seinna vænna).

Þegar ég bar samninginn minn undir fyrri leigjanda í því skyni að fylla sem mest út áður en ég bæri hann til undirskriftar, þá kom í ljós að á þeim samningi stendur að íbúðin sé ekki nema 30 m2. Leigusalinn skráði það hinsvegar á samninginn minn að fermetrar séu tæpir 40, og virtist ekkert kannast við neitt minna þegar ég síðar minntist á mismun þess samnings sem við gerðum og þess sem gerður var fyrir 2 árum við annan aðila (mun sem ég var þá búin að fá endurstaðfestan). Þar sem þessi mismunur pirraði mig töluvert þá ákvað ég að hringja í Fasteignamat Ríkisins til að fá botn í þetta, og geta þá hætt að pirra mig ef íbúðin væri nær 38 m2 en 30. Steininn tók úr þegar mér var þar tjáð að löglegir fermetrar væru 26. Tuttuguogsex! Og þrátt fyrir að ég viðurkenni hentugleika ríflegs gólfpláss (sem nýtist þó ekki fyllilega) þá finnst mér töluvert muna á 26 m2 og "tæplega 40"!!

Annar steinn sem samningurinn steytti á, var sú upphæð sem leigusalinn áætlaði mér í rafmagns- og hitanotkun. Því nú var hitinn skyndilega ekki inni í leiguupphæðinni, ekki er enn búið að skipta rafmagninu (nokkuð sem ég hélt að hefði verið frágengið í júlí þegar ég ræddi við hann) og hann taldi rétt að orkunotkun mín yrði 5000 kr. á mánuði.
Eftir að hafa rætt við 4-6 mismunandi aðila þá komst ég að þeirri niðurstöðu að 5000 kr. á mánuði fyrir einstakling sem ekki á þvottavél, þurrkara né örbylgjuofn, eldar sjaldan og horfir lítið á sjónvarp, í 26 m2 (ekki 38!) risíbúð væru afar ríflega áætlaðar, og minntist á það við leigusalann. Sá vildi nú kanna málið betur og spyrjast fyrir um það víðar, og í dag hafði hann svo samband við mig og tjáði mér að Orkuveitan segði sér að 4500 kr. væru viðmið fyrir einstakling í íbúð af þessari stærð ("tæplega 40 m2"). Þessi sama Orkuveita vildi ekki gefa mér upp neina áætlun, "hvort sem það eru 1800 eða 2000 kr. eða hvað" þegar ég hringdi í gær, en tjáði mér að ég yrði bara að komast að samkomulagi við eigandann. En þar sem ég vil ekki koma upp illindum tók ég því hundsbiti og játti þessum dómi leigusalans bara. Mér finnst þetta samt sem áður afar grunsamleg tala í ljósi þess að ég greiddi að meðaltali 3800 kr. á mánuði fyrir um 70 m2 íbúð þegar ég bjó á Skagaströnd, og þar er allt hitað með rafmagni því jarðhiti finnst ekki.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að leiga hefur almennt verið að hækka, en mér finnst full svart að stækka íbúð á pappírum og hækka leiguverð með því að smyrja ríflega á áætlaða orkunotkun eftir að munnlegt samkomulag hefur verið gert. Því hefði ég vitað í upphafi að okkar munnlega samkomulag væri svona sveigjanlegt hefði ég haft augun opin fyrir einhverju öðru líka. Mér finnst líka all merkilegt að þó þau segist ekki geta leigt mér á sama verði og fyrri leigjanda (breyttir tímar, hún var fyrsti leigjandi o.s.frv.) að þau geti heldur ekki leigt mér á sama fermetrafjölda og henni.

Og nú sé ég mér ekki annað áhugavert að gera en að kynda vandlega upp í ofnunum og kveikja ljósin sem oftast og mest svo ég geti nýtt mér að sem mestu leyti þá orkunotkun sem verið er að láta mig greiða.