Drottning Viðmiðunarinnar

sunnudagur, mars 25, 2007

Prúðuleikararnir

Síðustu helgi greip mig ómótstæðileg þörf til hitta ættingja, og höguðu örlögin því þannig að leið mín lá á Kárastíginn, þar sem ég get fundið 4 gæðaeintök af slíku fólki. Og það var heldur betur ferð til fjár. Bæði fékk ég kaffi og góðgerðir (sem næstu gestir komu með - ekki bara eru þetta frábærir ættingjar heldur eiga þau líka frábæra vini! - ) og svo fyrstu þáttaröðina með Prúðuleikurunum lánaða.

Prúðuleikararnir voru æði. Prúðuleikararnir eru æði. Hvílík snilld sem þessir þættir eru (og hve súr sum atriðin eru) !! Og það að fá landsþekkta einstaklinga til að syngja með brúðum finnst mér líka stórkostlegt. Þarna sá ég m.a. Charles Aznavour (hver svo sem það er) syngja fyrir brúðu-grasmaðk og ræða við handbrúðu-brauð. Og Harvey Korman klæddan í skyndi upp sem risa-kjúkling eftir að hann kvartaði yfir því að sér fyndist hann svo útundan innan um "castið", verandi eina ó-brúðan.

Þrátt fyrir allar tæknibrellur nútíma kvik- og teiknimynda, þá finnast mér Prúðuleikarnir hafa elst einstaklega vel. Og varnarorð eiganda seríunnar um að þeir séu ekki eins fyndnir núna og þeir voru þegar maður var 7 ára (eða hvað það nú var) ná ekki til mín. Kannski er ég enn 7 ára í hjarta og hjärna.

MUPPARNA STYRER !!

Ekkert

Þegar ég fór í Bónus um daginn mætti ég tveimur ungum mönnum sem voru að gefa 2ja lítra flöskur af Coke Zero. Being a sucker for free goods þá þáði ég eina slíka, þrátt fyrir allar fyrri yfirlýsingar um að þetta sull skyldi ég sko ekki drekka. Nafnið (og hvað þá auglýsingaherferðin!) væri hallærislegt og vísaði í mínum hug ekki einasta í sykurleysi, heldur líka í bragðleysi, tilgangsleysi og almennan skort á öllu góðu. En flöskuna þáði ég, og braut þar með fyrsta odd af oflæti mínu.

Það brot gekk aðeins lengra niður þegar ég opnaði flöskuna svo tveimur dögum seinna, og smakkaði drykkinn, því einhversstaðar hafði ég lesið það að einhverjum þætti áðurnefndur drykkur alls ekki slæmur þrátt fyrir fyrri trú á hið gagnstæða, og kannski, rétt kannski ætti mitt viðhorf eftir að breytast. Það væri þá betra að uppgötva það fyrr en síðar og jafnvel þá í einrúmi, verandi yfirlýsingaglöð manneskja sem vílar ekki fyrir sér að segja skoðun sína á vörum og þjónustu (stundum). Prufuna endurtók ég svo aftur tveimur dögum síðar, svona til að endanlegar niðurstöður myndu síður litast af ástandi mínu og bragðlaukanna í fyrra skiptið.

Niðurstaðan : Coke Zero á tvennt sameiginlegt með íslensku vatni. Það er bragðlaust og gott kalt.
Munurinn er hinsvegar sá að á meðan ég get svolgrað í mig 1,5 líter af vatni á 8 klst. vinnudegi, þá kem ég bara niður einu glasi af Coke Zero á sama tímabili. Því einhvernveginn þá ... er Núllið bara ekki nógu gott.

laugardagur, mars 17, 2007

Flickr !

Jæja, nú er ég farin að reyna (eftir bestu getu) að setja myndir á Flickr.
Hér má finna þær.
Enn sem komið er eru bara komnar inn myndir frá Kaupmannahöfn og nokkrir munaðarleysingjar, en úr því verður vonandi bætt í næstu viku.